IceCon – félag um furðusagnahátíð á Íslandi eru félagasamtök samkvæmt skráningu í Fyrirtækjaskrá og eru bundin af því að setja sér lög, halda aðalfundi og annað sem það félagaform kallar eftir lagalega séð. Hér fyrir neðan eru lög félagsins.
Lög félagsins
1. grein
Félagið heitir IceCon – félag um furðusagnahátíð á Íslandi.
2. grein
Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
3. grein
Tilgangur félagsins er að efla furðusögur og furðumenningu á Íslandi, með því að halda fundi og ráðstefnur og stuðla að aukinni umræðu.
4. grein
Rétt á inngöngu í félagið hafa öll þau sem vilja stuðla að bættri furðumenningu á Íslandi. Umsókn um inngöngu í félagið skal senda stjórn IceCon – félags um furðusagnahátíð á Íslandi.
5. grein
Starfstímabil félagsins er 1. apríl til 31. mars. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Allir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.
6. grein
Aðalfund skal halda eigi síðar en 30. maí ár hvert og skal boða til hans með sannanlegum hætti með minnst tveggja vikna fyrirvara, skv. netfangaskrá félagsins og á heimasíðu félagsins. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Skýrsla stjórnar lögð fram
- Reikningar lagðir fram til samþykktar
- Skriflegar tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þær fylgja endanlegri dagskrá. Þær þurfa samþykki meirihluta fundarmanna.
- Ákvörðun félagsgjalds næsta árs
- Kosning stjórnar. Framboð til stjórnarstarfa skulu hafa borist stjórn eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund og skulu þau fylgja endanlegri dagskrá.
- Kosning skoðunarmanna reikninga
- Önnur mál
7. grein
Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum, formanni og 4 meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi til tveggja ára í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.
8. grein
Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til áframhaldandi starfsemi félagsins.
9. grein
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til Rauða krossins á Íslandi.
Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi IceCon – félags um furðusagnahátíð á Íslandi þann 22. febrúar 2016.