Furðusagnahátíðin IceCon verður haldin helgina 5. til 7. október 2018. Er þetta í annað sinn sem þessi furðusagnahátíð er haldin á Íslandi.

Takmark hátíðarinnar er að auka veg og virðingu furðumenningar og aðdáendasamfélaga á Íslandi og að gefa furðusagnaaðdáendum tækifæri til að hittast í þægilegu rými, þar sem þeir geta spjallað um sameiginleg áhugamál sín.

Dagskrá – taktu þátt!

Dagskráin snýst að mestu leiti um bókmenntir en einnig verður rætt um önnur efni sem tengjast furðumenningu.

Þau sem vilja taka þátt í pallborðum, hvort sem er sem gestir eða stjórnendur, eru hvött til að hafa samband í tölvupósti, á netfang icecon.reykjavik(@)gmail.com.

Hátíðin er haldin í Iðnó og fara umræður fram í stóra salnum á fyrstu hæð. Vonumst við til að þeir sem taki ekki þátt í umræðu geti fengið sér kaffi, te eða bjór á kaffihúsinu eða rölt um sýningarbása.

Allar pallborðsumræður fara fram á ensku.

Sum kunna eflaust að spyrja af hverju hátíð sem haldin er á Íslandi fari fram á ensku, en þetta gefur erlendum gestum tækifæri til að taka þátt. Árið 2016 voru rétt um helmingur þátttakenda á IceCon erlendir gestir. Aðdáendasamfélög um furðumenningu eru mun eldri á í nágrannalöndum okkar og vonumst við því til að þessir nágrannar mæti galvaskir á svæðið og kynni okkur fyrir furðumenningu sinna heimalanda!

Þátttökugjald

Þátttökugjald er 60 evrur, og valkvæður hádegisverður á sunnudeginum mun kosta 25 evrur. Nemendur fá 20 evra afslátt á hátíðina.

Börn yngri en 12 ára fá frítt inn á hátíðina í fylgd með fullorðnum! Eldri börn fá svo að sjálfsögðu námsmannaafslátt.

Greiða má þátttökugjald með millifærslu í banka eða með PayPal. Frekari leiðbeiningar verða sendar við skráningu.

Sumum finnst kannski skrýtið að það kosti á svona atburð, en það kostar nokkuð að halda svona hátíð. Það er venjan erlendis að gestir greiði ráðstefnugjald á svona ráðstefnur (jafnvel þeir sem taka þátt í pallborðsumræðum). Aðeins heiðursgestinum er boðið á ráðstefnuna. Ráðstefnugjaldið fer í að greiða salarleiguna á Iðnó og flug og gistingu fyrir heiðursgestinn. Ef einhver hagnaður er á hátíðinni í ár, rennur hann til næstu hátíðar (við stefnum á 2020!) svo hún geti verið stærri.

Öll undirbúningsvinna er unnin í sjálfboðastarfi.

Berum virðingu hvert fyrir öðru!

Þátttakendur á ráðstefnunni skuldbinda sig að sýna öðrum gestum virðingu í aðdraganda ráðstefnunnar, á ráðstefnunni sjálfri og í kjölfar hennar. Lesið Code of Conduct fyrir IceCon 2018.

Hver erum við?

Vitu vera memm í skipulagningunni? Hafðu samband á icecon.reykjavik(@)gmail.com!

Félagasamtökin IceCon – félag um furðusagnahátíð á Íslandi hefur verið stofnað til að halda utan um ráðstefnuna. Kennitala félagsins er: 630216-1250. Lesið lög félagsins hér. Athugið, að samkvæmt lögum félagsins rennur allur ágóði af ráðstefnunni beint til næstu ráðstefnu. Ef félagið er lagt niður, renna eignir þess til Rauða krossins á Íslandi.

Skráið ykkur á IceCon 2018!

Skráið ykkur á IceCon hér og fylgist einnig með á Twitter eða Facebook!

Sjáumst öll í furðuheimum!